Ferill 683. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1062  —  683. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á tollalögum nr. 55/1987, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)


1. gr.

    Við 1. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
    Tollar á vörur sem upprunnar eru í fátækustu þróunarríkjum heims skulu falla niður til samræmis við niðurfellingu tolla á vörum sem upprunnar eru á Evrópska efnahagssvæðinu samkvæmt ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
    Fjármálaráðherra skal með reglugerð tiltaka hver skuli talin fátækustu þróunarríki heims og styðjast í þeim efnum við alþjóðleg viðmið.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Ísland gaf út yfirlýsingu á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (World Trade Organization, WTO) 3. maí 2000 um að það mundi veita fátækustu þróunarríkjum heims betri aðgang að markaði sínum með einhliða tollalækkunum. Þessi yfirlýsing var sett fram í samræmi við samkomulag sem gert var á vettvangi stofnunarinnar og kallast GSP-kerfi (General System of Preferences).
    Markmið samkomulagsins er að veita fátækustu þróunarríkjum heims betri möguleika á að flytja út framleiðsluvörur sínar til þeirra ríkja sem efnaðri eru. Mörg þeirra síðarnefndu hafa þegar veitt fátækustu þróunarríkjunum betri markaðsaðgang á grundvelli þessa samkomulags en þeirra á meðal eru ríki ESB, Sviss og Noregur. Í yfirlýsingunni frá því í maí felst ákvörðun af Íslands hálfu um að gerast aðili að þessu samkomulagi. Breyting þessi á tollalögum er nauðsynleg til þess að unnt sé að lækka tolla á framleiðsluvörum frá þessum ríkjum.
    Í frumvarpinu er valinn sá kostur að ákveða með reglugerð hvaða ríki skuli talin til fátækustu þróunarríkjanna. Er gert ráð fyrir að farið verði eftir skilgreiningu nefndar um framtak, auðveldun viðskipta og þróunarmál (Committee on Enterprise, Business Facilitation and Development) en hún starfar á vettvangi ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um viðskipti og þróun (United Nations Conference on Trade and Development, UNCTAD) um það hvaða ríki teljist til fátækustu þróunarríkja heims. Er þetta gert af hagkvæmnisástæðum því ef ríki falla af listanum eða bætast á hann er hægt að gera viðeigandi breytingar þar á með reglugerð.
    Samkvæmt skilgreiningu nefndarinnar eru eftirtalin 48 ríki fátækustu þróunarríki heims: Afganistan, Angóla, Bangladess, Benín, Bútan, Búrkína Fasó, Búrundí, Kambódía, Grænhöfðaeyjar, Mið-Afríkulýðveldið, Tsjad, Kómoreyjar, Kongó, Djíbútí, Miðbaugs-Gínea, Erítrea, Eþíópía, Gambía, Gínea, Gínea-Bissá, Haítí, Kíribatí, Laos, Lesótó, Líbería, Madagaskar, Malaví, Maldíveyjar, Malí, Máritanía, Mósambík, Burma, Nepal, Níger, Rúanda, Samóa, Saó Tóme og Prinsípe, Síerra Leóne, Salómonseyjar, Sómalía, Súdan, Tógó, Túvalú, Úganda, Tansanía, Vanúatú, Jemen og Sambía.
    Tolltekjur af innflutningi á varningi frá þessum 48 ríkjum voru á árinu 2000 um 3 milljónir króna.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/1987,
tollalögum, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að tollar á vörur sem upprunnar eru í fátækustu þróunarríkjum heims falli niður í samræmi við ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Tilgangurinn með niðurfellingunni er að auðvelda þessum ríkjum að flytja framleiðsluvörur sínar inn á markaði þeirra ríkja sem efnaðri eru. Áætlað er að tekjur ríkissjóðs lækki um tæplega 3 m.kr. við þessa breytingu.